Um nýliðinn þingvetur

rvk_n_1-katrin-jakobsdottir_crop-1rvk_s_1-svandis-svavarsdottir_crop-1

Af nýliðnu þingi
Þingveturinn var um margt óvenjulegur. Ný ríkisstjórn tók við í janúar og þá strax fóru þingmenn Vinstri-grænna í fundaferð um landið til að fara yfir úrslit kosninganna og stjórnmálaástandið. Marga félaga okkar þyrsti í að fá fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum þar sem við fórum yfir það hvernig við hefðum viljað ná fram raunverulegri stefnubreytingu innan mögulegrar ríkisstjórnar til að geta staðið við það sem sagt var fyrir kosningar.

Ný ríkisstjórn fór aðra leið; stjórnarsáttmálin var almennt orðaður og um leið kom fram löng þingmálaskrá með rúmlega hundrað málum; eftir þinghaldið eru heimturnar rýrar og megnið af samþykktum þingmálum eru EES-innleiðingar. Það breytir því þó ekki að pólitísk sýn ríkisstjórnarinnar liggur fyrir eftir veturinn. Málin sem sett voru á oddinn fyrir kosningar; hvort sem um er að ræða uppbyggingu heilbrigðiskerfis, skólakerfis, samgangna og annarra samfélagslegra innviða; hafa verið sett á bið – og þau mál sem Viðreisn og Björt framtíð töluðu fyrir, svo sem breytingar á sjávarútvegskerfinu, landbúnaðarkerfinu og þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB, eru líka á bið. Það mál sem ríkisstjórnin náði í gegn með eins manns meirihluta – þar sem öll stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn áætluninni – er fjármálaáætlun til fimm ára.

Dregið úr þjónustu við almenning
Fjármálaáætlunin er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áhersla er á lækkandi hlutfall samneyslunnar sem þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnilegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið hér á Íslandi. Sömuleiðis boðar áætlunin enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins og auka ójöfnuð í landinu.

Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Ef við viljum ráðast gegn þessari misskiptingu þarf endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur og skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum. Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Og að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar. Við Vinstri-græn höfum talað fyrir allt annars konar sýn og lagt fram tillögur, meðal annars að skattkerfisbreytingum, sem því miður hafa allar verið felldar.
Sveltistefna, einkavæðing og misskipting
Heilbrigðismálin hafa verið í kastljósinu þar sem erfitt hefur verið að fá skýrar yfirlýsingar frá heilbrigðisráðherra Bjartrar framtíðar um málefni einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja – sem hefur þó fengið skýra leiðsögn frá fólkinu í landinu, nú síðast í nýrri skoðanakönnun þar sem fram kemur að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem sé nægjanlega fjármagnað til að það þjóni markmiðum sínum

Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins virðist hafa gefist upp fyrir fjármálaráðherra Viðreisnar sem talar fyrir „heilbrigðri“ fækkun nemenda á framhalds- og háskólastigi. Fjármálaáætlunin er mun lakari fyrir framhaldsskóla landsins en fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sem samþykkt var í ágúst sl. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa, strax á að ráðast í óígrundaðar sameiningar og aukinn einkarekstur innan framhaldsskólakerfisins. Forsætisráðherra hefur látið frá sér formennsku í Vísinda- og tækniráði sem kemur ekki á óvart miðað við framtíðarsýn fjármálaáætlunar.

Hluti ríkisstjórnarinnar kynnir neyðaraðgerðir í húsnæðismálum en samþykkir um leið fjármálaáætlun þar sem húsnæðisstuðningur hins opinbera minnkar ár frá ári. Og enn bólar ekki á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þó að haldinn hafi verið blaðamannafundur um að slík áætlun verði lögð fram. Boðuð er sala á öllum eignarhlutum ríkisins í bönkunum án þess að nein framtíðarsýn hafi verið mörkuð um fjármálakerfið og fjármálaráðherrann hefur verið á harðahlaupum undan spurningum um sölu Kaupþings á hlut í Arion-banka til vogunarsjóða sem upphaflega var fagnað af ríkisstjórninni þó að hún virðist smám saman átta sig á því að vogunarsjóðir með eignarhald á aflandssvæðum séu ekki góðir framtíðareigendur fyrir fjármálafyrirtæki.

Að lokum eru ein stærstu vonbrigði fjármálaáætlunarinnar sú framtíðarsýn sem birtist um kjör öryrkja og aldraðra. Það er algjörlega óviðunandi að á þeim tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu öryrkjar fá 288 þúsund króna mánaðarlaun árið 2022 sem allir hljóta að sjá að eru ekki mannsæmandi kjör í neinum skilningi þess orðs.

Þegar þessi fjármálaáætlun var samþykkt staðfesti ríkisstjórnin pólitíska stöðu sína langt til hægri. Ríkisstjórnin er sett saman af flokkum sem eiga rætur í ysta hægri íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn og svo Bjartri framtíð sem hefur glatað sínu erindi með því að undirgangast áherslur Sjálfstæðisflokksins í stóru og smáu. Baráttumál Viðreisnar fyrir kosningar, kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði og aðildarumsókn að ESB eru allt mál sem eru sett til hliðar og virðist svo sem ríkisstjórnin snúist í raun um það eitt að standa saman um aukna misskiptingu, einkavæðingu innviða samfélagsins og sveltistefnu.

Nýr Landsréttur í ósátt og uppnámi
Lokaafrek ríkisstjórnarinnar var svo að leggja fram tillögu um skipan fimmtán nýrra dómara við nýtt millidómstig, Landsrétt. Dómsmálaráðherra vék þar verulega frá tillögu dómnefndar og færði fjóra aðila sem metnir voru í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda niður og færði upp fjóra aðra, upphaflega með þeim rökum að hún vildi meta dómarareynslu þyngra en dómnefnd hefði gert en í þeim rökstuðningi sem síðar var lagður fram vísaði ráðherrann einnig til kynjasjónarmiða og hefur í fjölmiðlum bent á formenn stjórnmálaflokkanna sem ábyrgðaraðila fyrir þeim sjónarmiðum. Þar er rétt að halda til haga að við Vinstri-græn höfum haldið til haga þessum sjónarmiðum og að sérstakt tillit verði tekið til jafnréttislaga við skipan dómara í Landsrétt. Þau lög byggjast hins vegar á þeirri forsendu að valið standi á milli tveggja umsækjenda sem metnir eru jafn hæfir og við, ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, bentum á að ráðherrann hefði ekki fært fullnægjandi rök fyrir því máli sínu. Því ber að halda til haga að ráðherrann einn ber ábyrgð á sinni tillögu og getur ekki vísað á aðra í því. Minnihlutinn óskaði eftir því að málinu yrði frestað og ráðherra og Alþingi fengju aukinn tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Við því var ekki orðið og neytti meirihlutinn því aflsmuna sinna til að samþykkja fimmtán nýja dómara við Landsrétt í bullandi ágreiningi þar sem augljóslega hafði ekki gefist tími til að fara yfir málið með fullnægjandi hætti. Það er grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi að svo naumur meirihluti skuli fara fram með þessum hætti þegar um er að ræða eina grein hins opinbera valds, dómsvaldið, og skipan þess. Í tíð fyrri ráðherra málaflokksins var mikil áhersla á að leiða fram lagaumgjörð og inntak nýs dómstigs í sátt. Nýr ráðherra hefur nú þverbrotið það ferli, gengið fram á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.

Stjórnarandstaða um allt land í allt sumar
Nýr þingflokkur VG hefur verið vinnusamur og þróttmikill og staðið vel saman í málflutningi og tillögugerð. Þingflokkurinn hefur lagt sig fram um að skapa samstöðu í stjórnarandstöðunni þar sem það hefur átt við og veitt stjórnarflokkunum öflugt aðhald í þinginu. Ljóst er að stjórnarandstaða gegn svo veikri stjórn sem hér er og svo hægrisinnaðri þarf að koma víðar að. Hún þarf sannarlega að vera öflug í þinginu en ekki síður fyrir utan þingið, í fjölmiðlum og manna á meðal. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert umboð til að ganga í skrokk á innviðum samfélagsins og valda á þeim varanlegum skaða. Hún þarf að finna fyrir stjórnarandstöðu um samfélagið allt. Leggjum okkar af mörkum.

 

Gleðilegt sumar.

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.